Hér er skemmtileg frétt um osta.
Haraldur Benediktsson, alþingismaður, varaformaður atvinnuveganefndar Alþingis og fyrrverandi formaður Bændasamtakanna, segist verða var við að kallað sé eftir „sérostum“ eins og hann orðar það.
Sérostar – það er merkilegt orð.
Sérostar eru þá væntanlega þeir ostar sem eru framleiddir erlendis. Við höfum þá franska sérosta, ítalska sérosta, hollenska og danska sérosta.
Ostar sem eru framleiddir á Íslandi eru hins vegar ekki sérostar. Þeir eru eiginlegir ostar. Það mætti jafnvel segja að þeir séu frumostar.
Þeir bera samt ýmis erlend nöfn eins og camenbert, brie, feta, mozzarella, gouda og kotasæla (cottage cheese). En þeir eru ekki ógerilsneyddir, ó nei.
Haraldur segir líka að hann kannist ekki við að það sé forgangsmál á Íslandi að fá „buffalóaosta“.
Buffalaostar eru meðal annars mozarella sem er vinsæll í matargerð.
Þetta er örugglega rétt hjá Haraldi. Þarna er ekkert forgangsmál. Ekki fremur en það er forgangsmál að flytja inn allar þessar tegundir af þvottaefni, kexi og bílum og fleiru sem var gjarnan kvartað undan í Þjóðviljanum í gamla daga. Við getum vel lifað án þess, eins og við lifðum þegar var bara ein sjónvarpsstöð, fólk gekk í Gefjunarfötum og drakk Bragakaffi frá Sambandinu.
Ýmsir franskir sérostar.