Það er nöturleg mynd af íslenska efnahagslífinu sem er dregin upp í grein Þórðar Snæs Júlíussonar í Kjarnanum. Þórður lýsir því hvernig peningar dælast inn í lífeyrissjóðina, 10-12 milljarðar á mánuði, og hvernig lífeyrissjóðunum gengur að fjárfesta í lokuðu hagkerfi. Lífeyrissjóðir eru sagðir eiga 37,44 prósent hlutafjár íslenskra félaga sem skráð eru í Kauphöll Íslands, en líklegast eiga þeir meira en það.
Lífeyrissjóðirnir eiga svo hluti í sjóðum sem standa í alls kyns fjárfestingum, eins og til dæmis Stefni, Gamma og Virðingu, þeir eiga hluti í stórum fyrirtækjum sem eru ekki skráð á markað og svo taka þeir þátt í að kaupa upp fasteignir og fjárfesta í fasteignaverkefnum.
Eins og Þórður segir, „lífeyrissjóðir eiga flest hlutabréf, skuldabréf og gommu af fasteignum“ og –
En það er full ástæða til að hafa áhyggjur. Þessi gríðarlega fjárfestingarþörf lífeyrissjóðanna innan hafta hefur nefnilega valdið því að hér myndast verðbólur. Mörg félög í kauphöllinni eru allt of hátt skráð einfaldlega vegna þess að vitað er að lífeyrissjóðir, eða fjárfestingasjóðir fullir af peningunum þeirra, geta illa selt þau bréf sem þeir eiga. Það er ekkert annað til að kaupa. Þetta vita aðrir fjárfestar, einkaaðilar sem fengu margir hverjir innstæður sínar tryggðar í botn með neyðarlögunum eða fluttu heim ágóðan sem þeir náðu að hirða út úr íslenska efnahagsundrinu áður en það rann á andlitið og drukknaði í drullupolli í október 2008. Þetta eru, í mörgum tilfellum, þeir sem skópu skrímslið og högnuðust gríðarlega á vegferð þess. Þeir „teika“ lífeyrissjóðina í þeirra fjárfestingum vegna þess að þeir vita að ekkert sem sjóðirnir kaupa mun nokkurn tímann falla á meðan að höftin hanga uppi. Á þessu græða margir einstaklingar óheyrilega.
Hvað gerist þegar höftunum verður lyft – er þessi vöxtur sjálfbær? Þórður segir að hættan sé að lífeyrissjóðirnir verði þá einir eftir í „partíi sem er löngu búið“.
Gunnar Smári Egilsson, sá glöggi fjölmiðlamaður, orðar þetta svo á Facebook:
Allt sem hægt er að kaupa á Íslandi mun hrynja í verði; skuldabréf, hlutabréf, steinsteypa. Þeir sem eiga pening ættu að kaupa eitthvað sem hægt er að flytja úr landi í næsta hruni; t.d. skip eða flugvélar. Það er skýringin á aukinni fjárfestingu útgerðarfyrirtækja (og reyndar Flugleiða og Eimskip líka). Þetta eru ekki fjárfestingar byggðar á trú á framtíð atvinnugreinarinnar heldur undirbúningur þess að koma fjármunum undan fyrirsjáanlegu hruni krónunnar – og þar með Íslands. Eins og á við um alla atvinnustarfsemi á Íslandi; þá eru allar fjárfestingar hér í eðli sínu spákaupmennska á gjaldeyrismarkaði.