Það eru sannarlega breyttir tímar.
Um árabil birti Morgunblaðið pistla eftir prédíkarann Billy Graham undir nafninu Svar mitt.
Nú er sonur Billys, Franklin, á leið til landsins og þá upphefst mikil mótmælahreyfing. Það er meira að segja búið að panta öll sætin á samkomu með henni – svo þeir sem gætu viljað hlusta á hann í alvöru komast ekki að.
Kannski verður salurinn fullur af fólki sem baular?
Franklin er andsnúinn samkynhneigðum og telur þá grafa undan bandarísku samfélagi.
Billy Graham er sömu skoðunar, nú í hárri elli.
En aftur að Morgunblaðspistlunum. Þegar þeir voru að birtast var Graham mjög áhrifamikill maður. Hann er sagður hafa verið ráðgjafi sjö Bandaríkjaforseta í „andlegum málefnum“. Prédíkanir hans einkenndust ekki svo mjög af eldi og brennisteini eins og tíðkast oft meðal sjónvarpsprédíkara í Bandaríkjunum, heldur þótti hann alltaf meira „dipló“.
Og þannig var hann húsum hæfur í Mogganum.
Þeir sem muna Morgunblað þessara ára eru sjálfsagt ekki heldur búnir að gleyma öðrum andlegum ráðgjafa sem átti fastan dálk í blaðinu, það var stjörnuspá Jeane Dixon. Bæði Nixon og Reagan fylgdust með spádómum hennar – sem og lesendur Moggans.