Það er alveg rétt hjá Sigurði G. Guðjónssyni að það þýðir ekki að stjórna landi með því að reglulega sé efnt til undirskriftasafnana á netinu og skorað á forseta Íslands að undirrita ekki hin eða þessi lögin.
Stjórnskipulega er þetta algjör óskapnaður.
Mismunandi hópar reyna að ganga í augun á forsetanum með hugmyndir sínar, hann vegur og metur eftir sínu lagi – eða kannski duttlungum.
Stundum hentar það forsetanum pólitískt að neita að skrifa undir lög, stundum hentar það ekki.
Næst gætum við reyndar fengið forseta sem hefði allt aðrar hugmyndir um hvernig og hvort eigi að beita þessu valdi.
Ef við viljum hafa beint lýðræði þarf að búa því einhvern farveg sem vit er í, að undirskriftasafnanir fari fram eftir settum reglum, hver eigi að vera prósenta kjósenda til að þjóðaratkvæði komi til greina, hvaða málefni henti í þjóðaratkvæðagreiðslur.
Verði þetta ekki gert er hætt við að þessi áköll til forsetans leysist upp í farsa – og líka skiptin þegar hann tekur ábúðarmikill við áskorununum – nema þá að verði sjálfhætt þegar og ef menn missa trúna á þessari leið. Það gæti gerst fyrr en varir.