Það er greinilegt að þjóðhverf viðhorf eru í tísku.
Nú er talað um það sem mikið fullveldismál að fá að veiða ókjör af makríl. Á öðrum stað les ég að Íslendingar séu beittir nýlendukúgun vegna makríldeilunnar.
Henni er líkt við landhelgismálin forðum.
En staðreyndin er sú að við höfum átt í fjölda deilna vegna fiskistofna sem synda inn í landhelgi okkar eða nálægt henni. Stundum höfum við líka staðið í deilum vegna fiskistofna sem eru fjarri okkur – eins og í Smugunni um árið.
Íslensk skip hafa líka verið að stunda fiskveiðar við strendur Afríku. Þær hafa sætt gagnrýni bæði heimamanna og alþjóðasamfélagsins. Kannski erum við þar í hlutverki nýlendukúgaranna – eða hvað?
Flestar hafa deilur vegna flökkustofna verið við Noreg. Deilur um síldveiðar eiga sér langa sögu. Og við erum enn einu sinni í þrætu við Norðmenn út af makrílnum, en þar bætist líka við Evrópusambandið – aðallega vegna fiskveiðihagsmuna Skota.
Fyrr eða síðar verður samið um þetta, alveg burtséð frá aðildarumsókn Íslands að Evrópusambandinu. Best væri auðvitað að þjóðirnar reyndu að komast að einhverri skynsamlegri lausn þannig að ekki verði gengið frá stofninum – eins og gert var við síldina hér í eina tíð.