Jóhann G. Jóhannsson tónlistarmaður er látinn – það er harmafregn.
Jóhann bjó í Ljósvallagötu þegar ég var að alast upp á Ásvallagötunni. Hann var einn þeirra sem ég leit hvað mest upp til á þessum miklu popp- og rokkárum.
Á þeim árum hélt Jóhann úti framúrstefnuútgáfu hljómsveitarinnar Óðmanna. Þar voru þeir með honum Finnur Torfi Stefánsson og Reynir Harðarson. Hljómsveitin var undir greinilegum áhrifum frá Cream, spilaði oft lög eftir þá sveit. Svo urðu þeir geysilega metnaðarfullir – gáfu út tvöfalt albúm með frumsaminni tónlist sem sætti afar miklum tíðindum.
Ég var ekki nema tíu ára gamall, en flýtti mér upp í Fálka á Laugaveginum, keypti plötuna, setti hana á fóninn heima og hlustaði. Áður hafði ég reyndar eignast litla plötu með laginu Spilltur heimur. Það þótti afar heavy og fullt af ádeilu.
Ég þorði samt aldrei að yrða á þá Óðmennina þótt þeir væru alltaf á ferli í hverfinu – á myndinni hérna má sjá hvað þeir voru svakalega miklir töffarar. Þessi mynd er tekin þegar þeir sömdu og léku tónlistina í Poppleiknum Óla sem var sýndur í Tjarnarbíói við feiki góðar undirtektir.
Jóhann samdi síðar fjölda af lögum sem hann flutti sjálfur eða þá fyrir aðra tónlistarmenn. Ég er samt ekki viss um að allir átti sig á því að lög eru eftir Jóhann þegar þau eru spiluð. Hann lætur eftir sig stórt og merkilegt lagasafn – ég þakka fyrir mig.