Eins og ég hef áður sagt sýnist mér ný stjórn Ríkisútvarpsins vera vel skipuð. Þetta er talsverð breyting frá því sem var þegar harðir flokksmenn sátu í stjórninni.
Þarna hefur semsagt tekist vel til.
Nú er talsvert fjaðrafok vegna þess að píratinn Birgitta Jónsdóttir heldur því fram að hafi átt að „mannorðsmyrða“ Láru Hönnu Einarsdóttur í þingsal. Píratar munu hafa viljað skipa Láru Hönnu í stjórn RÚV – hún er varamaður.
Nokkuð er óljóst hvernig mannorðsmorð í þingsal fer fram. Í þinginu hafa yfirleitt verið nokkuð strangar reglur um hvernig talað er um fólk í ræðustól.
Það virðist svo vera þessu nokkuð ótengt að athugað er með hæfi Láru Hönnu til að gegna þessu starfi. Henni er ábyggilega vel treystandi til þess.
En hins vegar er ekki launungarmál að hún hefur lengi starfað fyrir helsta samkeppnisaðila Ríkisútvarpsins og gerir það enn. Það varð meira að segja að miklu fjölmiðlamáli þegar til stóð að reka hana af Stöð 2 nýskeð. Það er því engan veginn óeðlilegt að hæfi hennar sé skoðað.
Samt á ég ekki von á öðru en að hún verði metin hæf – enda er hún kjörin til þessa af þinginu og þá skiptir líklega máli að hún er verktaki hjá Stöð 2 en ekki fastráðinn starfsmaður.