Það er búist við miklu af Illuga Gunnarssyni, nýjum menntamálaráðherra. Illugi er bráðklár maður – einn sá greindasti í stjórnmálum á Íslandi og það er vitað að hann sóttist eftir því að verða menntamálaráðherra.
Sumir óttast kannski að Illugi geri breytingar á skólakerfinu – aðrir telja að tími sé kominn til.
Það þarf ekki að tala of mikið um atvinnuvegina, að það sé nauðsynlegt fyrir þá að íslenski skólinn verði betri. Betra er að horfa á nemendurna sjálfa og þarfir þeirra.
Það eru engin almennileg rök fyrir því að íslensk ungmenni útskrifist tveimur árum síðar sem stúdentar en jafnaldrar þeirra í nágrannalöndum – sem hafa betra menntakerfi en við.
Grunnskólinn var lengdur fyrir allmörgum árum, börn fóru að koma í skóla sex ára. En námsframvindan þar hefur ekki orðið meiri. Það er ljótt að sóa tíma barna – því miður er alltof mikið af því.
Það þarf líka að fara yfir hin háleitu markmið um einstaklingsmiðað nám og skóla án aðgreiningar. Er hugsanlegt að þessar hugmyndir séu alls ekki að virka?
Því miður bendir margt til þess.
Svo þarf að gera hluti sem hafa lengi verið ræddir, eins og að efla verknám. Um leið hlýtur Illugi að skoða nýju námskrána sem var samþykkt á síðasta kjörtímabili og fékk vægast sagt litla umræðu. Þetta er mjög einkennilegt plagg, einkennist fyrst og fremst af illa skrifuðum orðavaðli um samfélagsmál.