Við vorum kannski ekki alveg upp við sviðið en það var rosa stemming á Rolling Stones tónleikunum í Hyde Park í gærkvöldi. Þetta var síðasti konsertinn á tónleikaferð þeirra – þeir voru miklu betri en þegar ég sá þá síðast árið 2006. Því verður varla jafnað saman.
Síðustu vikurnar hafa verið eins og sigurför fyrir hljómsveitina heima á Englandi. Fyrst enduðu þeir Glastonbury-hátíðina, það var sagt á eftir að þeir hefðu verið besta lokanúmer Glastonbury fyrr og síðar. Svo voru tvennir stórir tónleikar í sumarblíðu í miðri London, í Hyde Park.
Mick Jagger verður sjötugur 26. júlí næstkomandi. Það er þó ekki að sjá á manninum. Hann heldur uppi mikilli keyrslu á sviðinu og röddin er flott. Hér er hann í hvítri blússu sem hann sagði að væri sú sama og hann var í þegar Stones spiluðu í Hyde Park á frægum tónleikum 1969.
Hápunktur tónleikanna var þegar gítarleikarinn Mick Taylor steig á svið og hljómsveitinn renndi sér í gegnum langa útgáfu af Midnight Rambler. Taylor var í Stones á árunum 1969 til 1975 og er sagður vera besti hjóðfæraleikari sveitarinnar fyrr og síðar. Nærvera hans hafði greinilega mjög góð áhrif og spilagleðin leyndi sér ekki.
Og svo eru þeir hérna, Keith og Kári.