Ég ber mikla virðingu fyrir lögreglunni á Íslandi. Hún nýtur líka mikils trausts – það hefur ítrekað komið fram í skoðanakönnunum. Hún er ein þeirra stofnana á Íslandi sem nýtur mests trausts.
Sem er gott.
Það er kannski að bera í bakkafullan lækinn að fjalla um hið sorglega atvik sem varð á Laugavegi fyrir nokkrum dögum.
En það verður samt að segja að talsmenn lögreglunnar eru að bjóða upp á málflutning sem er fyrir neðan allar hellur.
Að kalla það „norsku aðferðina“ þegar lögreglumaður missir stjórn á skapi sínu og flýgur á dauðadrukkna konu sem sem er líklega þrisvar sinnum léttari en hann – það er alveg út í hött.
Því auðvitað stóð engin ógn af konunni, hún var greinilega pirrandi og leiðinleg og alltof drukkin, en svo er reyndar farið um fjölda manns í miðborg Reykjavíkur um helgar.
Ég er ekki viss um að lögreglumaðurinn sem framkvæmdi þessa „norsku“ handtöku sé í réttu starfi. En hann á að fá að njóta vafans og vonandi mun rannsókn leiða það í ljós. En lögreglan ætti að láta að vera að réttlæta þennan atburð.
Í þessu má jafnvel leita í smiðju heimspekingsins Kants og spyrja hvort við viljum að þessi athöfn verði að almennri reglu – ég hygg að flestir muni segja nei við því.