Norðlingaölduveita þótti lengi nokkuð augljós virkjanakostur og reyndar má færa rök fyrir því að það sé hún enn, þrátt fyrir að komist sé að annarri niðurstöðu í rammaáætlun.
Það er mikið talað um fagleg vinnubrögð í sambandi við rammaáætlunina, en auðvitað speglar hún líka pólitískar áherslur – og þær hafa verið breytingum háðar á síðustu árum.
Mesti umhverfisverndarflokkurinn VG fór með umhverfisráðuneytið síðustu rúmlega fjögur árin, nú er þangað kominn framsóknarmaður sem er ekkert sérlega umhverfissinnaður.
Jón Kristjánsson, sem þá var heilbrigðisráðherra, kvað á sínum tíma upp úrskurð um Norðlingaölduveitu sem mörgum þótti í anda Salómons. Þó voru ekki allir ánægðir og það endaði loks með mikilli stækkun friðlandsins við Þjórsárver – sem aftur útilokar Norðlingaölduveitu.
Það er ekki sjálfgefið að núverandi ríkisstjórn sé sammála þessari niðurstöðu þar sem ná fram að ganga ítrustu umhverfissjónarmið.
En það er hins vegar dálítið pínlegt að það hafi verið búið að prenta og senda boðskortin þegar ákveðið var að hverfa frá friðlýsingunni.