Hannes Pétursson skáld stakk upp á því í grein um daginn að Íslendingar framleiddu sjálfir gæludýrafóður úr hvalaafurðum fremur en að skipa kjötinu út til Rotterdam og þaðan til Japan þar sem það endar sem hunda- og kattamatur, þ.e. kjötið sem ekki hrúgast upp í skemmum.
Þetta er í raun mjög athyglisverð hugmynd, sérstaklega vegna gjaldeyrissparnaðarins sem gæti orðið mikil.
Það eru flutt inn einhver ósköp af gæludýrafóðri til landsins, hillurnar í heilu deildunum í verslunum svigna undan þessari vöru.
Þarna hljóta að gilda sömu rök og um landbúnaðarafurðir okkar, það sparast mikill gjaldeyrir af því að framleiða þær hér heima – eða svo er sagt.
Markaðssetning yrði auðvitað að vera góð – fólki yrði innrætt að það sé sérlega þjóðlegt að kaupa íslenska gæludýrafóðrið og styrkja um leið rétt smáþjóðar til að nýta auðlindir sínar. Þetta sé í raun fullveldismál.
Þannig væri alveg ástæðulaust að draga dul á að hunda- og kattamaturinn væri hvalur – nei, þvert á móti yrði auglýst að varan sé 100 prósent langreyður eða hrefna.
Þannig væri mynd af hval á dósunum – og svo kannski skjaldarmerkið eða fáninn.
Í auglýsingaherferðina þyrfti einhverja djúpa og landsföðurslega rödd til að koma þessu til skila, Kristján Loftsson myndi ekki duga, því hann er frekar skrækur. Frekar að manni detti í hug sjálfur Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra.