Það er náttúrlega ekki vitað hvað Sigmundur Davíð og Bjarni Ben eru að semja um fyrir það sem er farið að nefna Krónustjórnina. Þannig að það er mikið um vangaveltur.
Þau orð Bjarna að hann sækist ekki endilega eftir forsætisráðuneytinu hafa vakið athygli. Hvaða ráðuneyti ætti formaður Sjálfstæðisflokksins þá að taka að sér?
Samkvæmt hefð er utanríkisráðuneytið næst virðingarmest, en það hefur þó verið að breytast. Ef hætt verður við ESB-umsóknina verða verkefni utanríkisráðuneytisins varla þess eðlis að þau hæfi formanni stærsta flokksins. Utanríkisráðuneytið hefur líka þann galla að sá sem gegnir embættinu er mikið í burtu – ráðherrann er ekki sérlega vel í stakk búinn til að vera virkur í stjórnmálunum heima og í flokki sínum.
Fjármálaráðuneytið kæmi líka til greina. Raunar gæti verið möguleiki að efnahagsráðuneytið yrði aftur fært úr fjármálaráðuneytinu eins og það var fyrir tíma síðustu breytinga. Árni Páll Árnason missti þá ráðherraembætti sitt – hann færði ágætis rök fyrir því að þetta ættu að vera tvö aðskilin ráðuneyti.
En á fjármálaráðuneytinu mun sjálfsagt mest mæða varðandi skuldaafskriftir og samninga við erlenda kröfuhafa. Þetta er aðalmál Framsóknarflokksins og kannski eðlilegt að einhver úr röðum hans gangi í þau verk.
Þá er eftir atvinnuvegaráðuneytið þar sem Steingrímur J. hefur verið ráðherra. Undir það falla nú sjávarútvegur, landbúnaður og iðnaður – jú, og fjármálastarfsemi. Þetta er ansi stórt ráðuneyti og kannski gæti það verið við hæfi formanns Sjálfstæðisflokksins.
Reyndar er spurt hvort Sjálfstæðisflokkurinn ætli að vera svo meðfærilegur að gefa eftir bæði forsætisráðuneytið og andstöðuna við skuldaleiðréttingaleið Framsóknar. Ýmsum kann að virðast það heldur mikið. Össur Skarphéðinsson skrifar grein í þá veru hér á Eyjuna í dag, hann segir að Sjálfstæðisflokkurinn minni helst á „borðtusku“ í höndum Sigmundar Davíðs.
Össur er náttúrlega virkur leikandi í stjórmálum, þannig að hann er kannski að fiska í gruggugu vatni. En það virkar samt þannig að Framsóknarflokkurinn sé skipulagður, viti hvað hann vill, lúti einum vilja, en Sjálfstæðisflokkurinn sé býsna mikið út og suður.