Stöð 2 boðar áframhaldandi umfjöllun um „ofbeldi kennara og starfsmanna grunnskóla gagnvart nemendum“.
Einhvern veginn er ég hræddur um að í þessu geti falist talsverð einföldun.
Margir grunnskólakennarar eru settir í gjörsamlega vonlausa aðstöðu í fjölmennum bekkjum í „skóla án aðgreiningar“. Þar eiga þeir að veita „einstaklingsmiðað nám“.
Gengur eiginlega ekki upp.
Á sama tíma eru kennarar í heldur veikri stöðu gagnvart nemendum sem spilla friðnum í bekkjum – það vandamál verður auðvitað erfiðara viðfangs í „skóla án aðgreiningar“ – og oft foreldrum sem mega ekki heyra sett út á börn sín. Og fólk er oft fljótt að dæma í málum sem það veit lítið sem ekkert um.
Vegna trúnaðarskyldu geta þeir svo yfirleitt ekki svarað ásökunum á hendur sér.
Þetta þarf að ræða um leið og fjallað er um „ofbeldi kennara“.
Í þessu sambandi má benda á skáldsögu eftir Helga Ingólfsson menntaskólakennara sem nefnist Frjálsar hendur. Bókin gerist reyndar í framhaldsskóla, en þar er býsna fjörleg lýsing á hlutskipti kennara á tíma þegar virðing fyrir kennarastarfinu hefur farið mjög þverrandi.