Eitt aðalmál nýrrar ríkisstjórnar eru samningar við erlenda kröfuhafa – hrægammana eins og þeir eru kallaðir þegar þykir henta.
Margt hangir á þessum viðræðum, til að mynda afnám gjaldeyrishafta og loforð um að fella niður skuldir heimila sem var aðalkosningamálið í vor.
Maður skyldi því halda að þetta væri algjört forgangsmál.
En svo virðist ekki vera, ríkisstjórnin er afar hikandi og engar slíkar samningaviðræður eru hafnar svo vitað sé. Það var fært í lög undir lok tíma síðustu ríkisstjórnar að Seðlabankinn mætti ekki ganga frá slíkum samningum án aðkomu stjórmálamanna.
Skýringarnar geta náttúrlega verið ýmsar. Reynsluleysi ráðherra sem eru að kynnast störfum sínum, vinna vegna fjárlaga eða þá kannski að stjórnarflokkarnir eru ekki samstíga um hvernig þessar viðræður eigi að þróast og útkomu þeirra.