Það verður að segjast eins og er, þetta er kolröng greining hjá hinum ágæta þáttastjórnanda Sigurjóni.
Ég geri mér svosem enga grein fyrir því hvaða möguleika Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir á til að leiða lista sjálfstæðismanna í Reykjavík.
Þau hafa hins vegar skarað fram úr þar hún og Gísli Marteinn Baldursson. Þau eru bæði talsmenn nútímalegra sjónarmiða – og hafa látið gamaldags flokkapukur lönd og leið.
Það var einmitt slíkt pukur sem leiddi til þess að Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson – sem er löngu orðinn ærulaus í stjórnmálum – dúkkaði allt í einu upp með Ólaf F. Magnússon sem borgarstjóra.
Mann sem var ekki í neinu andlegu jafnvægi.
Það var bæði ljótt og sorglegt. Eftir stuttan tíma gáfust líka Sjálfstæðismenn upp á Ólafi og köstuðu honum eins og notaðri tusku.
Þorbjörg Helga kallar hlutina sínum réttu nöfnum í viðtali við Nýtt líf – og hún segist skammast sín fyrir að hafa, treglega þó, átt þátt í þessari atburðarás.
Þetta er ærlegt uppgjör hjá stjórnmálakonunni við atburði sem gerðust fyrir örfáum árum.