Maður óttast helst að eftir för Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar til Evrópu og yfirlýsingar hans á evrópskum vettvangi, verði það talið til marks um þjóðhollustu og ást á fullveldi íslensku þjóðarinnar að éta makríl.
Ég sá að strax í gærkvöldi var Frosti Sigurjónsson, þingmaður Framsóknarflokksins, farinn að setja inn makríluppskriftir á Facebook-síðu sína.
Vandinn er sá að makríll er afar vondur matfiskur, feitur, olíukenndur og slepjulegur. Í raun er hann nánast óætur. Þó er hægt að leggja sér hann til munns reyktan, en þá helst ekki oftar en svona einu sinni til tvisvar á ári.
En nú þarf þjóðin að standa sig í stykkinu. Ég sé hjá Frosta að makríllinn er borðaður inni í brauði, líkt og pylsa. Frosti stingur upp á nafninu „mulsa“. Það gæti kannski dugað til að deyfa bragðið af fiskinum – rétt eins og gert er með SS-pylsurnar sem eru ætar ef passað er upp á að þær séu í brauði og löðrandi í sósum.
„Mulsurnar“ gætu auðvitað orðið mjög drjúgar fyrir þjóðina ef Evrópusambandið fer að beita okkur viðskiptaþvingunum.