Hugsanlega er það af ásettu ráði að margir kjósa að skilja orð Kristjáns Þórs Júlíussonar þannig að hann sé að mæla með einkavæðingu í heilbrigðiskerfinu?
En svo eru aðrir sem kannski bara misskilja?
Einkarekstur tíðkast víða í heilbrigðiskerfinu á Íslandi. Fyrirkomulagið er þannig að ríkið er eini kaupandinn. Það ákveður verð þjónustunnar. Kannski eru einhver komugjöld, en þau eru þá á pari við það sem tíðkast annars staðar í kerfinu.
Svo eru náttúrlega til aðgerðir sem sjúklingar þurfa að borga sjálfir, eins og til dæmis fegrunaraðgerðir. Um þær gildir annað – þar er hægt að tala um hreina einkastarfsemi.
En verðið á að vera hið sama í öllu sem fellur undir sjúkratryggingar, hvort sem rekstraraðilinn er ríki, sveitarfélag eða einkaaðili.
Það er mergurinn málsins og líklega er heillavænlegast kerfi þar sem þessu þrennu er blandað saman. Það er nákvæmlega ekkert sem segir að hið opinbera þurfi að sjá um allan reksturinn þótt það sé kaupandi þjónustunnar.
Það má nefna sem dæmi að heilsugæslukerfið á höfuðborgarsvæðinu er í raun hrunið. Tugir þúsunda manna hafa engan heimilislækni. Þeim er vísað á læknavaktir þar sem er engin eftirfygni með þeim. Væri hugsanlegt að í þessu samhengi kynni einkarekstur upp að einhverju marki vera til bóta?
Og þá er, eins og áður segir, ríkið eini kaupandinn. Það er ekki hægt að kaupa sig fram fyrir í röðinni eða okra á starfseminni.