Það er spurning hvort það sé gert með ásettu ráði að setja saman hóp umdeildustu þingmannanna og láta hann fá það verkefni að koma með tillögur um niðurskurð í ríkisrekstrinum.
Er kannski álitið að þetta fólk hafi engu að tapa?
Í hópnum eru þingmenn sem hafa virst meðal þeirra reiðustu sem sitja á Alþingi. Það á kannski að reyna að virkja reiðina?
En þetta er býsna vandasamt verkefni. Þingmaður eins og Ásmundur Einar Daðason mun varla leggja til niðurskurð í landbúnaðarkerfinu.
Heilbrigðismálin eru náttúrlega langstærsti útgjaldaliður ríkisstjórnarinnar. En það er varla hægt að skera meira niður þar. Vigdís Hauksdóttir hafði líka uppi miklar heitstreningingar um það í aðdraganda kosninganna að heilbrigðismálin ættu að vera í fyrsta sæti og reyndar líka um að öldruðum og öryrkjum yrðu bættar tekjuskerðingar.
Það er sjálfsagt hægt að klípa eitthvað af listamannalaunum – listamenn eru nánast hlægilega taugaveiklaðir vegna Vigdísar – spara pínu með því að hætta að ræða við ESB, jú og kannski má taka eitthvað af hinum og þessum stofnunum. En þetta eru smáupphæðir miðað við stóru útgjaldaliðina.
Ríkisstjórnin hefur fengið þriggja vikna frestun á því að skila fjárlögum. Miðað við það sem nú er að gerast virðist nokkuð langt í að hægt verði að standa við loforð um skattalækkanir.