Ólafur Margeirsson hagfræðingur skrifar stórmerkilega grein hér á Eyjuna undir heitinu Let them eat credit.
Ólafur fjallar um þá aðferð sem var notuð í Bandaríkjunum eftir að ójöfnuður fór að aukast á nýjan leik að auðvelda aðgengi almennings að lánsfé.
Með þessu gat peningalítið fólk – fólk sem átti kannski ekki nema fyrir næstu mánaðargreiðslu lána – um tíma ímyndað sér að það nyti næstum jafn góðra kjara og ríka fólkið sem upplifði alvöru gróðæri.
Íslenska útlánaveislan var af þessum toga, eins og Ólafur segir.
„Það skal ósagt látið hvort tekjuójöfnuður hafi verið það sem ýtti íslenskum stjórnmálamönnum út í þessa hvatningu og í að “fiffa” íbúðalánakerfið en það var gert engu að síður. Vafalaust var hluti af ástæðunni, ég leyfi mér að segja, sú undarlega árátta að allir á Íslandi skuli “eiga” húsnæði. Þetta er ekki ósvipað ameríska draumnum. En hví má fólk ekki leigja húsnæði ef það hefur ekki efni á því að kaupa? Og ef út í það er farið: ef það er 80%-90% lán á íbúðarhúsnæði, er þá hægt að segja að hinn skráði fasteignaeigandi “eigi” viðkomandi íbúðarhúsnæði?
Útlánaveislan sem boðið var upp á hér á Íslandi endaði á ekki ósvipaðan hátt og sú sem boðið var upp á vestan hafs. Fólk var ánægt og fannst það ríkt því það var skráður eigandi að húsnæði sem það átti þó ekki nema 10-20% í: svona svipað og að halda því fram að eiga 100kr. þegar 80 af þeim eru teknar að láni. Sjálfsblekkingin varð svo enn meiri þegar húsnæðisverð hækkaði einmitt vegna þess að aukin útlán stóðu til boða. En líkt og lýðurinn í Róm var ánægður svo lengi sem hann fékk leiki í hringleikahúsum og brauð með voru Íslendingar ánægðir svo lengi sem boðið var upp á nægilega mikið af útlánum. Á meðan voru stjórnmálamenn ánægðir því kjósendur voru ánægðir.
En bólan sprakk og það þarf að þrífa af borðum. Fjármálakerfið sjálft er enn í vandræðum vegna hárra skulda lántaka sem óvíst er að þeir ráði við. Íbúðalánasjóður er í vandræðum sem ekki sér fyrir endann á. Fyrri tíðar “fiff” stjórnmálamanna þarf að laga.“