Edward Snowden hefur í raun unnið afar merkilegt starf.
Hann sýnir okkur hversu stjórnvöld eru tilbúin að ganga langt til að snuðra um þegna sína.
Þegar kommúnistar áttu í hlut var svonalagað talið mjög ófínt. Leyniþjónustur á borð við Stasi hafa hryllilegt orð á sér. Stasi byggði upp víðtækasta eftirlitskerfi sem hefur þekkst á jörðinni, þangað til nú – það var njósnað um alla borgara ríkisins.
Upplýsingatækni nútímans gefur ríkisstjórnum, lögreglu og einkafyrirtækjum tækifæri til að fylgjast með borgurunum með áður óþekktum hætti. Snuðrararnir geta verið lengst í burtu, jafnvel í annarri heimsálfu.
Steve Wozniak, annar af stofnendum Apple og einn upphafsmaður nútíma tölvutækni, ræðir þetta í viðtali við CNN:
„Við sáum ekki fyrir að í hinum stafræna heimi yrðu ótal aðferðir til að nota tæknina til að stjórna okkur, til að snuðra um okkur, til að gera hluti sem var ekki hægt að gera áður. Í gamla daga sendi maður bréf, sleikti umslagið, og þegar maður fékk bréfið var það ennþá lokað, enginn hafði séð innihald þess. Það var einkamál. Nú er sagt, vegna þess að þetta er tölvupóstur, þá getur það ekki verið einkamál, allir mega skoða.“
Og Wozniak heldur áfram og talar um hvernig Föðurlandslögin (Patriot Act) í Bandaríkjunum stangast á við stjórnarskrána:
„Nú höfum við lög þar sem gera kleift að kalla allt hryðjuverkastarfsemi, menn geta gert hvað sem þeir vilja, án þess að dómstólar grípi inn í og segi að þetta sé rangt… [Ég] var alinn upp í þeirri trú að Rússland kommúnismans væri svo slæmt vegna þess að það var stöðugt veið að fylgjast með fólki, snuðra um það, handtaka það, setja það í leynileg fangelsi og láta það hverfa – þetta var lifið í Rússlandi. En við erum að verða meira og meira eins og þetta.“