Stundum er ekki allt í lagi í Bandaríkjunum.
Nú á að ákæra mann fyrir njósnir – en hann kom upp um eitthverjar umfangsmestu njósnir allra tíma.
Í augum umheimsins er Edward Snowden hetja og Bandaríkin munu aðeins skaða álit sitt með því að ofsækja hann.
Hann er maðurinn sem ljóstrar upp um samfélag sem er gegnsýrt af eftirliti, þar sem er fylgst með hverri athöfn manns, orðum – og kannski einhvern tíma hugsun.
Það skal ekki fangelsa þá sem hlera síma og internet – heldur þann sem segir frá hlerununum. Það stenst náttúrlega enga skoðun.
Einhvern tíma var talað um 1984 í þessu sambandi – Snowden er eins og viti sem varar við því að við höldum lengra áfram eftir þessari braut.
Og því er almenningsálitið að miklu leyti með Snowden – þótt skammsýnir stjórnmálamenn vilji helst ekki vita af máli hans.
Þjóðaröryggi er reyndar orðið eins konar sjúkdómur í Bandaríkjunum. Þetta skynja allir sem hafa farið yfir landamæri til Bandaríkjanna og séð allan þann fjölda öryggisgæslufólks sem hringsnýst í kringum sjálft sig, ábúðarmikið á svip, og tækjabúnaðinn sem það á að vera að nota. Í kringum þetta hefur svo risið kafkaískt skrifræðisbákn – sem hefur aðgang að fullkomnustu tækni nútímans.
Aðalmálið er þó kannski að þetta er iðnaður sem veltir milljörðum dollara, svo það er mikið í húfi.