Í raun er ástandið í stjórnmálunum á Íslandi galið.
Nú vonast þeir til að forsetinn grípi inn í lagasetningu sem voru á móti því að hann gerði það á síðasta kjörtímabili.
Og þeir sem vildu að hann gripi inn í á síðasta kjörtímabili, vilja alls ekki að hann noti þetta vald sitt núna.
Stjórnmálin ganga æ meira út á að reyna að ganga í augun á forsetanum, í þeirri von að honum henti að láta til sín taka.
Hann virkar misjafnlega áhugasamur – eftir því hvernig vindurinn blæs. En hann er líka dálítð bundinn af stórum yfirlýsingum sínum um þjóðarviljann – eða svo kann að virðast.
Líklega verður ekki hróflað við valdi forsetans á þessu kjörtímabili, sjálfur forsætisráðherrann virkar eins og skjólstæðingur hans – að minnsta kosti ekki nema Ólafur Ragnar láti til sín taka og stöðvi einhverja lagasetningu frá ríkisstjórninni.
Þá gæti sambandið auðvitað súrnað fljótt. Myndi Ólafur Ragnar taka sénsinn á því, þá þyrfti hann kannski að finna sér enn nýja fylgismenn?
En auðvitað er bara ein skynsamleg niðurstaða í þessu. Það þarf að breyta stjórnarskránni þannig að skýrar sé kveðið á um vald forsetans og þjóðaratkvæðagreiðslur.