Warren Buffett, auðmaðurinn mikli, sagði einhvern tíma að hann hefði sigrað í eggjastokkahappdrættinu, þ.e. hann hefði verið fæddur á mjög góðum stað á mjög góðum tíma.
Buffett var fæddur í Bandaríkjunum 1930. Það voru krepputímar, en framtíð Bandaríkjanna var björt. Þegar Buffet komst á fullorðinsár var mesta blómaskeið Bandaríkjanna.
Þrátt fyrir að við Íslendingar séum gjarnir á að vola og væla yfir hlutskipti okkar, þá er víst að við erum flest vinningshafar í eggjastokkahappdrættinu.
Við hefðum líklega fæst viljað fæðast á Indlandi, í Afríku, nú eða á Íslandi á 18. öld.
Það eitt að við skulum fæðast á Íslandi – í Vestur- Evrópu – tryggir að við tileheyrum örfáum prósentum mannkyns sem búa við mest ríkidæmi, best heilsufar, velmegun og velferð.
Við sjáum reyndar að ýmsar þjóðir eru að rísa úr fátækt – að minnsta kosti að hluta til. Það eru að verða til fjölmennar millistéttir í Kína, Indlandi og Brasilíu. Sums staðar í Afríku er jafnvel farið að örla á millistétt.
Við höfum það þó fram yfir flesta að í heimshluta okkar er stjórnarfar þar sem er lýðræði, tjáningarfrelsi, réttarríki – að ógleymdri mannúðinni. Hún er ekki síst, við erum uppi á mannúðlegri tíma en hefur áður þekkst í sögunni. Fræðimaðurinn Stephen Pinker skrifaði lærða bók um þetta sem nefnist The Better Angels of our Nature: umburðarlyndi hefur vaxið í vestrænum samfélögum, grimmd og ofbeldi hafa verið á undanhaldi.
Í heiminum má segja að séu þrjú megin þjóðfélagskerfi – það er bandaríski ofurkapítalisminn, kínverski herskálakapítalisminn og evrópski velferðarkapítalisminn eða hið blandaða hagkerfi. Síðastnefnda þjóðfélagskerfið ríkir líka að miklu leyti í Kanada, Ástralíu og að sumu leyti Japan.
Það þarf varla neinn að velkjast í vafa um hver af þessum þjóðfélagsgerðum tryggir almenningi best kjör. Alþingismaður á Íslandi getur haldið því fram að Evrópa sé félagsmálastofnun, en það er sem betur fer í miklu ósamræmi við þau viðhorf sem eru uppi í stjórnmálum á Íslandi.