Athyglisvert er að tilkynna eigi stjórnarmyndunina í gamla húsi Héraðsskólans á Laugarvatni.
Kannski er þetta tilraun til að koma á nafninu Laugarvatnsstjórnin.
Þarna er hús í þjóðlegum burstastíl, teiknað af Guðjóni Samúelssyni.
Það er semsé lagt upp með þjóðlegheit – og gagngert farið upp í sveit.
Nafn Jónasar frá Hriflu kemur líka í hugann. Héraðsskólar voru hans dæmi, Guðjón uppáhaldsarkitekt hans. Héraðskólinn á Laugarvatni var fyrsta stórvirki Jónasar og var opnaður á tíma þegar Jónas var sagður vera nær einráður á Íslandi. Hann var mjög þjóðlegur maður.
En sjálfstæðismenn hötuðu Jónas, hann var lengi óvinur númer eitt. Jónas vann aldrei með Íhaldinu eins og það var kallað. En hann er stofnandi Framsóknarflokksins og áhrifamesti stjórnmálamaður sem hefur verið í þeim herbúðum.
Eru það kannski mistök hjá sjálfstæðismönnum að láta leiða sig inn í þetta musteri framsóknarmennskunnar?