Simon Kuper skrifar umhugsunarverða og nokkuð gamansama grein sem birtist á vef Financial Times. Hún fjallar um ástandið í Evrópu. Kuper segir að það sé skelfilegt – nema ef við förum að miða við önnur lönd og önnur tímabil.
Þetta sé nefnilega býsna góður tími til að vera uppi í Evrópu.
Þrátt fyrir mikla kreppu á Spáni, segir Kuper, eru lífslíkur fólks á Spáni 82 ár, 7 árum hærri en 1980. Meðaltekjur spænskra borgara séu tvöfaldar á við það sem var þá.
Daglegt líf fari yfirleitt batnandi. Langflest lönd þar sem fólk getur búist við að ná svo háum aldri séu í Evrópu. Glæpatíðni hafi farið mjög lækkandi í flestum evrópskum borgum – götur í Bretlandi hafi ekki verið svo öruggar í 30 ár.
Kuper bendir líka á að lífsgæðum sé dreift nokkuð jafnt í Evrópu. Þannig hafi nýtt lyf við krabbameini kannski meiri áhrif á líf fólks en nýr forsætisráðherra. 7 af 10 löndum þar sem misrétti milli kynja er minnst séu í Evrópu. 6 af 10 löndum þar sem er minns spilling séu í álfunni. Og 17 efstu löndin hvað varðar jöfnuð eru í Evrópu.
Vissulega horfum við upp á lönd eins og Kína, Indland og Brasilía sækja fram. Lífskjörin þar eru náttúrlega langt í frá að jafnast við það sem er í Evrópu. Þessu fylgir ákveðin vænisýki, eins og nýju efnahagsveldin séu að taka eitthvað frá okkur. En er það endilega svo. Eru þarna ekki að verða til efnaðar millistéttir sem hafa efni á að kaupa evrópskan varning og gista á evrópskum hótelum?
Kuiper nefnir einnig að lýðræði í Evrópu hafi staðist raun kreppu sem hefur verið í næstum fimm ár. Fyrir þrjátíu árum var enn möguleiki á að fasísk öfl næðu völdum í Evrópuríkjum. En það virðist harla ólíklegt nú – og við höfum í raun ekki séð öfgahreyfingar rísa eins og mætti ætla í slíku ástandi.
Hryðjuverkaógnin í Evrópu er líka nánast horfin – stórt hryðjuverk hefur ekki verið framið í Evrópu síðan 2005, segir Kuiper.
Stríð eru líka víðs fjarri. Evrópuríki hafa skorið mikið niður í hermálum. Þau eru ekki í stakk búin til að heyja stór stríð. Það er ágætt, segir Kuiper, þá er ólíklegra að þau leiðist út í stríðsrekstur. Íbúar Vestur-Evrópu eru ekki nema sex prósent af íbúatölu heimsins – þeir eru búinir að gefa upp á bátinn hugmyndina um að þeir geti stjórnað veröldinni og langar ekkert sérstaklega til þess.
Kuiper segir að lokum að einhvern tíma líði kreppan hjá og menn hætti að tala um hvað evrópska módelið sé kolómögulegt. Evrópa verði varla miðdepill alheimsins, en það sé hægt að ímynda sér verri staði til að búa á.