Það er stórfrétt að Osama Bin Laden skuli hafa verið drepinn. Þetta virðist vera ótvírætt, Obama forseti sagði að þeir hefðu lík hans undir höndun,
Fyrst og fremst er þetta táknrænt, einhvers konar réttlæti er fullnægt eftir árásinni á tvíburaturnana í New York, næstum tíu árum eftir að hún var gerð.
Osama bin Laden hafði verið horfinn í þennan áratug – áhrif hans voru tæplega mikil, fyrir utan að hann var tákn um hatur á Vesturlöndum og hina ofsafengnu pólitísku íslamstrú sem hann var fulltrúi fyrir.
Það verður forvitnilegt að vita hvernig þessum atburðum verður tekið í múslimaheiminum. Á einhverjum stöðum verður ábyggilega litið á hann sem píslarvott.
En hryðjuverk hafa ekki reynst vera sama vandamál og menn óttuðust eftir árásina 11. september 2001. Að einhverju leyti kann það að vera vegna harðra viðbragða á Vesturlöndum, en það skiptir líka máli að hugmyndafræði Bin Ladens og hans nóta er ekki jafn vinsæl og sumir héldu. Það var ógeðfelldur tími þegar menn voru hálfpartinn farnir að líta á alla múslima sem mögulega hryðjuverkamenn. En svo má ekki heldur gleyma því að tvær blóðugar styrjaldir eiga að miklu leyti upptök sín í þessum atburðum – önnur þeirra stendur enn.
Bin Laden blandaði saman glæpum, trú, pólitík og hálf fasískri hugmyndafræði. Hinar skelfilegu hugmyndir lifa sjálfsagt áfram, en það er í sjálfu sér fagnaðarefni að þessi illvirki skuli vera fyrir bí.