Áhrif efnahagshrunsins eru enn að koma fram.
Íslenska krónan hrundi gagnvart öðrum gjaldmiðlum. Hún hefur ekki rétt úr kútnum ennþá, og reyndar byggir efnahagsstefnan sem er rekin á því að halda henni lágri svo arðurinn af útflutningsgreinum sé nægur til að greiða skuldir.
Framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu segir að ástandið sé að verða eins og í Austur-Evrópu. Lífskjörin séu svipuð og í Póllandi. Hann segir að hlutur lágvöruverslana sé að lækka og vöruúrval fari minnkandi.
Það er varla von á öðru. Við töldum okkur vera komin með lífskjör eins og þau eru best í Skandinavíu. Það reyndist vera blekking. Við sólunduðum tækifærunum sem hér buðust í rugl – og það mun taka langan tíma að borga brúsann. Almenningur er stórskuldugur og launin hafa lækkað mikið.
Það er talað um íslenska leið út úr kreppunni – en hún er bæði löng og ströng og kannski leiðir hún ekki til annars en að við höldum áfram að dragast aftur úr.