Það er sagt að Kolaportið muni loka í langan tíma vegna framkvæmda við tollstöðvarhúsið.
Sem er leitt, Kolaportið er partur af mannlífinu í Reykjavík.
En kannski er kominn tími til að huga að stærra og fallegra húsnæði fyrir markað í Reykjavík.
Framtakssamir einstaklingar hafa verið að skoða möguleika á að koma upp alvöru matarmarkaði í borginni og þá er einkum horft á svæðið við höfnina.
Það er frekar þröngt um matinn í Kolaportinu og loftræstingin er ekki góð.
Þessi starfsemi á skilið að fá betra húsnæði – og þá væri vonandi hægt að hafa eitthvað meira fallegt, gott og skemmtilegt – grænmeti, vörur frá bændum, fjölbreyttara úrval af fiski, sætindi, kökur, krydd.
Jú og matvæli sem hægt væri að borða á staðnum.
Slíkar kauphallir eru víða í borgum – til dæmis eru þær vinsælar á Norðurlöndunum.
Hér væri þetta tilbreyting frá hinu einhæfa úrvali sem er að finna í stórmörkuðunum.