Jón Baldvin Hannibalsson sagði í Silfrinu á sunnudag, og var ekki að skafa utan af því, að ef ríkisstjórnin stæði ekki við fyrirheit sín í fiskveiðistjórnunarmálum væru það svik.
Víst er að þannig líður mörgum stuðningsmönnum ríkisstjórnarinnar – og öðrum sem hafa vænst þess að breytingar yrðu gerðar á kvótakerfinu.
Hin svokallaða samningaleið virðist ekki vera annað en væg formbreyting – enda eru helstu stuðningsmenn LÍÚ mjög glaðhlakkalegir þessa dagana. Það er vandséð að þessi leið bindi enda á deilur um kvótakerfið.
Ríkisstjórnin boðaði í tuttugu punktum sínum að ef ekki næðist sátt um breytingar á fiskveiðistjórnuninni yrði farið í þjóðaratkvæðagreiðslu um kostina sem eru í boði.
Hún gæti verið býsna hatrömm – og reyndar spurning hvort þjóðin má við slíkum deilum ofan á allt hitt.
En það er víst að svonefnd tilboðsleið myndi eiga talsvert meiri stuðning hjá þjóðinni en hjá LÍÚ eða stjórnmálastéttinni – enda hafa skoðanakannanir hvað eftir annað sýnt að mikill meirihluti þjóðarinnar er mótfallinn kvótakerfinu.