Lesandi síðunnar sendi þessar línur:
— — —
„Ég hef verið að pæla aðeins í gamni í verði á húsnæði og bar gróflega saman við Bretland. Mér sýnist að í raun ætti húsnæðisverð að lækka um svona 40% til að ná jafnvægi og vinda ofan af bólunni sem varð á fasteignamarkaði. Þetta myndi reyndar gera helming heimila í landinu tæknilega gjaldþrota í einni svipan þannig að það virðist vera samstaða um að halda nafnverðinu föstu en leyfa verðbólgu að færa niður raunvirðið. Það tekur þá einhver fimm ár í viðbót þangað til fasteignamarkaður tekur aftur við sér en hann er einn af grunnstoðum efnahagslífsins.
Stundum er sagt að eðlilegt sé að það kosti um fern brúttóárslaun að kaupa sér viðunandi húsnæði fyrir vísitölufjölskyldu, svona í nútímasögu, en þetta hefur verið til umræðu í Bretlandi, meðal annars í FT fyrir skemmstu. Mér sýnist að við séum að tala um sjöföld til áttföld árslaun heima, m.ö.o. væri þannig fasteignaverð helmingi of hátt miðað við kaupmátt (og svo framboð og eftirspurn).
Eitt skil ég ekki sem þú kannski hefur eitthvað heyrt um.
Seðlabankinn hefur verið að hækka íslensku krónuna í sáralitlum viðskiptum undanfarnar vikur. Það má segja að krónan hafi verið að hækka um hið minnsta tíu punkta daglega í næstum tvo mánuði. Þetta hefur haft í för með sér að evran hefur lækkað úr 156 í 150 til að nefna dæmi.
Í raun ætti þessu að vera öfugt farið, vaxtalækkun SÍ og fréttir af samdrætti í landsframleiðslu ættu að hafa veikt krónuna snarplega og hefði verið raunsærra að evran færi til dæmis strax í 160 kall við þær fréttir.
En gjaldeyrishöftin eru það mikil að í raun veit enginn hvers virði íslenska krónan er. Ég hygg hins vegar að þeir sem eiga gjaldeyri og vilji eiga viðskipti á Íslandi muni vera mjög hikandi að skipta evrum í krónur á núverandi gengi.
En vitaskuld er þetta ágæt þróun fyrir þann hluta almennings sem ennþá treystir sér til að skreppa til útlanda af og til.“