Hjörtur J. Guðmundsson spyr á bloggi sínu hvort Nató eigi ekki að fá að ekki veita miklum fjármunum hingað ef svo færi að haldin yrði þjóðaratkvæðagreiðsla um veruna í Atlantshafsbandalaginu.
Svarið er auðvitað að það hefur þegar verið gert. Hversu margir Íslendingar ætli hafi farið í Natóferðir í gegnum tíðina?
Og sumir hafa meira að segja farið oft í ferðalög á vegum hernaðarbandalagsins – bæði til Evrópu og Bandaríkjanna. Já, sumir margoft held ég að megi fullyrða.
Það hafa verið í gangi sérstök samtök sem hafa snúist meira og minna um þessar ferðir.
Því má heldur ekki gleyma að árunum þegar Ísland varð þátttakandi í Nató var miklu fjármagni dælt hingað. Við fengum mjög ríflega Marshall-aðstoð, meira en efni stóðu til miðað við skaðann sem Íslendingar urðu fyrir í stríðinu. Því hefur verið lýst í sagnfræðiritum hvernig Bandaríkjamenn keyptu fisk af Íslendingum sem þeir gátu ekki annars selt.
Fjöldi Íslendinga græddi óskaplega á hermanginu, og þess var gætt að skipta gróðanum bróðurlega á milli ríkjandi afla í samfélaginu. Sumar fjölskyldur urðu moldríkar á þessu. Þetta gat verið alls konar starfsemi, allt frá verktakabisness til veiðileyfasölu. Sagnfræðingar hafa sagt frá því að Bandaríkjamenn hafi keypt af Íslendingum afurðir sem þeim tókst ekki að selja annars staðar.
Um Natóaðildina var aldrei haldin þjóðaratkvæðagreiðsla, þrátt fyrir háværa kröfu þar um. Margt bendir til þess að hún hefði verið felld í mars 1949 þegar Alþingi samþykkti inngönguna í Nató.
Nú er eilíflega verið að tala um hlutverk Nató – og ég ætla að geta þess að ég tel að bandalagið hafi haft talsverða þýðingu á árum Kalda stríðsins. Hins vegar er þetta hernaðarbandalag að sumu leyti ráðgáta núorðið – þegar það er farið að stunda hernað lengst austur í Afganistan.
ps. Ég læt þess getið að ég hef ekki farið í Natóferð þótt mér hafi verið boðið nokkrum sinnum. Hins vegar fór ég einu sinni til Brussel á vegum bandaríska sendiráðsins. Það var árið 1997 að mig minnir.