fbpx
Sunnudagur 27.júlí 2025
Eyjan

Kirkjan og eineltið

Egill Helgason
Mánudaginn 6. september 2010 16:32

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Í leiðara Morgunblaðsins í dag er lagt út af grein formanns Framsóknarflokksins um kirkjuna. Þeir Sigmundur og Davíð eru sammála um að kirkjan sé lögð í einelti í fjölmiðlum. Davíð hrósar Sigmundi fyrir kjarkinn að skrifa svona grein.

Kirkjunnar menn eru sjálfir að kvarta undan þessu, að fréttist af úrsögnum úr Þjóðkirkjunni. Og þá er auðvelt að kenna fjölmiðlunum um.

Staðreyndin er hins vegar sú að kirkjan hefur höndlað alvarleg kynferðisbrotamál sem hafa komið upp innan hennar afskaplega óhönduglega. Hún hefur tekið afstöðu með valdinu, ekki hinum veikburða – eins og hún ætti auðvitað að gera.

Þetta kemur svosem ekki á óvart. Kirkjan er valdastofnun. Kristur sjálfur segir ekki orð um að sett skuli á stofn fyrirbæri af þessu tagi, með prestum og prelátum.

En víða þar sem maður fer skynjar maður að fólki – ja, grandvöru fólki – finnst að kirkjan hafi staðið sig skammarlega í þessum málum. Það hefur verið slegið úr og í, en eftir stendur að varðstaðan um þann skelfilega mann sem kirkjan valdi sem biskup sinn rofnaði ekki. En kirkjan hefur reyndar lifað það af víða í heiminum að hafa ónýta og ömurlega menn í fyrirsvari – kannski vegna þess að stofnunin er þrátt fyrir allt stærri en einstaklingarnir sem stjórna henni. Það þarf mjög mikið til að brjóta niður kristnina í landinu.

Í Morgunblaðsleiðaranum er formanni Framsóknarflokksins hrósað, aðrir fá skammir.

Til dæmis er þar talað um „tengdason Stígamóta“ sem stjórni umfjölluninni á Rúv.

Tengdasonurinn er vinnufélagi minn Sigmar Guðmundsson. Hann er reyndar fyrrverandi tengdasonur Guðrúnar Jónsdóttur í Stígamótum.

En hver er í raun aðdróttunin? Býr þarna undir sú hugmynd að Stígamót – samtök sem berjast gegn kynferðisofbeldi – séu að baki herferð gegn kirkjunni? Er þetta kannski vondur félagsskapur?

Í næstu línu leiðarans stendur að á sjónvarpinu vinni líka „systir Exista“.

Eru  Stígamót og útrásarfélagið Exista af sama meiði á einhvern hátt?

Og þetta skrifar fyrrverandi forsætisráðherra Íslands, utanríkisráðherra, bankastjóri Seðlabankans og eftirlaunaþegi  – sem telur sig frábærlega hæfan til að hafa skoðanir á öllu sem viðkemur íslenskri pólitík og hruni efnahagskerfisins, eins og hann hafi hvergi komið þar nærri sjálfur.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 5 dögum

Sakar ríkisstjórnina um hræðsluáróður í ESB-málinu

Sakar ríkisstjórnina um hræðsluáróður í ESB-málinu
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Segir stjórnarandstöðuna bergmála rússneskan áróður og lygar – „Af hverju vill hægrið berjast gegn vestrænum gildum?“

Segir stjórnarandstöðuna bergmála rússneskan áróður og lygar – „Af hverju vill hægrið berjast gegn vestrænum gildum?“