Rússneskir sjóliðar ganga um í rigningunni hér í Reykjavík, heldur þungbúnir á svip. Ég efast um að þeir hafi efni á að kaupa margt í búðum hér eða veitingahúsum.
Glaðlyndu stúlkunni sem afgreiðir í Krambúðinni fannst þeir heldur fúlir og spunnust af því nokkrar umræður í búðinni. Ég sagði að Rússar væru almennt ekki þekktir fyrir glaðvært viðmót.
En það er svosem ósköp grátt hérna úti, þótt hitastigið sé frekar hátt. Samt ekki jafn grámyglulegt og í Múrmansk en einn sjóliðinn sagði mér að þangað væri skipið þeirra að fara.
Múrmansk þykir einhver daprasti staður á norðurhveli jarðar.
Skipið sem Rússarnir eru á heitir Sedov og mun vera eitt stærsta seglskip í heimi. Það liggur við Miðbakkann og möstrin á því gnæfa yfir borgina.
Ég skrifaði að koma skipsins hingað tengdist kannski valdatöku Alþýðubandalagsins, en ég var bara að bulla.