fbpx
Mánudagur 28.júlí 2025
Eyjan

Þörf upprifjun

Egill Helgason
Laugardaginn 11. september 2010 11:56

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Úr skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. Gott að rifja upp nú þegar Alþingi ætlar að fara að vinna úr skýrslunni:

— — —

„Vinnuhópnum var ætlað að leggja mat á hvort skýringar á falli íslensku bankanna og tengdum efnahagsáföllum megi að einhverju leyti finna í starfsháttum og siðferði. Niðurstaða vinnuhópsins er að starfsháttum og siðferði var víða ábótavant í íslensku samfélagi og að sú staðreynd sé hluti af margþættum skýringum á því hve illa fór. Þetta á við jafnt í stjórnmálum og viðskiptalífi sem í stjórnsýslu og fjölmiðlum. Ljóst er að fyrirtækjamenning bankanna vanrækti siðferðilega þætti og dygðum sem eru kjölfesta góðra viðskiptahátta var kastað fyrir róða. Amast var við eftirlitsaðilum sem gæta eiga góðra starfshátta og verja hagsmuni almennings. Þeim sem sinntu innra eftirliti var til að mynda gert erfitt um vik að sinna skyldum sínum en skemmtideildir voru efldar. Margir meðlimir fagstétta innan bankakerfisins sinntu þröngri hagsmunagæslu fyrir skjólstæðinga sína en létu sig ekki varða afleiðingar athafna sinna fyrir samfélagið í heild. Hugmyndir um samfélagslega ábyrgð höfðu það einkum að markmiði að bæta ímynd fyrirtækjanna fremur en að efla trúverðugleika þeirra til langs tíma litið. Hvatakerfi miðuðust við skammtímagróða stjórnenda og eigenda á kostnað smærri hluthafa og alls almennings. Eigendur bankanna nutu óheftrar fyrirgreiðslu. Taumlítil gróðahyggja einkenndi margvísleg samskipti bankamanna við viðskiptavini og traust almennings var misnotað. Bankakerfið varð óeðlilega stórt og að sama skapi gríðarlega öflugt. Starfshættir bankanna og flókið eignarhald gerðu eftirlitsaðilum erfitt um vik. Mikil stemning var í samfélaginu fyrir framgöngu bankamanna og helstu eigenda þeirra. Smæð samfélagsins og kunningjatengsl ólu á trausti og samstöðu sem veikti skilyrðin fyrir nauðsynlegu aðhaldi. Ríkjandi hugmyndafræði gekk út á að draga úr styrk ríkisstofnana. Allt þetta gerði það að verkum að íslenskt samfélag var vanbúið að mæta þeim öru breytingum á fjármálakerfinu sem urðu í kjölfar einkavæðingar bankanna. Mikilvægt er að hafa þetta samhengi í huga þegar ábyrgð einstakra embættismanna og ráðamanna er metin. Bankakerfið reyndist íslensku stjórnkerfi ofviða og atburðarásin í aðdraganda bankahrunsins afhjúpaði alvarlega veikleika í stjórnsýslunni. Eftirlitsstofnanir sýndu linkind gagnvart bankamönnum og beittu þá engum réttnefndum þrýstingi til þess að draga saman seglin. Boðleiðir í stjórnkerfinu voru gallaðar og misbrestur var á að ráðherrar væru upplýstir. Mikill skortur er á gagnafærslu í stjórnsýslunni og samskipti einkennast um of af óformlegum samtölum. Fagmennsku var því verulega ábótavant í stjórnkerfinu. Ekki er nokkur vafi að pólitískar ráðningar eru skaðlegar og draga úr trúverðugleika embættismanna. Þröng lagahyggja kom í veg fyrir að unnið væri eftir tilgangi laga og það verklag þjónaði sérhagsmunum fjármálafyrirtækja á kostnað almannahagsmuna. Það sýnir hvernig ríkjandi hugsunarháttur og viðurkennt gildismat geta verið skaðleg ekki síður en svik og prettir. Stjórnmálamenn vanræktu margvíslegar skyldur sínar og brugðust ábyrgð sinni gagnvart almenningi. Vikið var frá eðlilegum starfsháttum við einkavæðingu bankanna og reynslulitlum aðilum treyst fyrir helstu fjármálastofnunum landsins. Viðskiptabankarnir fengu að vaxa langt úr hófi fram sem leiddi til þess að við þá varð ekki ráðið. Látið var undir höfuð leggjast að fá faglegt og óháð mat á stöðu bankanna. Ríkið var skipulega vanrækt enda oftrú á eftirlitsleysi ríkjandi í trausti þess að einkaaðilar myndu ástunda sjálfseftirlit. Vantrú á sérfræðingum og faglegu áliti hefur verið áberandi innan íslenskra stjórnmála, líklega vegna þess að það er talið draga úr valdi kjörinna stjórnmálamanna. Vald einstakra ráðherra kom í veg fyrir að upplýsingaflæði yrði innan ríkisstjórnarinnar. Afleiðingin varð vanmat á aðstæðum og aðgerðaleysi sem varð þjóðinni dýrkeypt. Íslensk stjórnmálamenning hefur einkennst um of af átökum og kappræðu þar sem sanngildi staðhæfinga er lítilvægt í stað rökræðu og sjálfstæðis löggjafans gagnvart framkvæmdarvaldinu. Það voru ekki aðeins eftirlitsstofnanir með fjármálakerfinu sem brugðust hlutverki sínu heldur einnig sú stofnun sem framar öðrum á að gæta almannahagsmuna – Alþingi.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 5 dögum

Jón Gnarr tjáir sig um besta vininn – „Vekur gjarnan aðdáun og áhuga hjá fólki“

Jón Gnarr tjáir sig um besta vininn – „Vekur gjarnan aðdáun og áhuga hjá fólki“
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Vilhjálmur vill vísa árásármanni Eyþórs úr landi – „Þessi framkoma gagnvart okkar friðsæla samfélagi er til skammar“

Vilhjálmur vill vísa árásármanni Eyþórs úr landi – „Þessi framkoma gagnvart okkar friðsæla samfélagi er til skammar“
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Björn Jón skrifar: Aðdáun á fornköppum

Björn Jón skrifar: Aðdáun á fornköppum
Eyjan
Fyrir 1 viku

Orðið á götunni: Þingmaður Sjálfstæðisflokksins erfingi milljarða og lítur niður á þá sem minna eiga

Orðið á götunni: Þingmaður Sjálfstæðisflokksins erfingi milljarða og lítur niður á þá sem minna eiga
Eyjan
Fyrir 1 viku

Sigmar Guðmundsson: Veit ekki hvað formaður Sjálfstæðisflokksins er að fara með hótunum sínum – hér urðu valdaskipti

Sigmar Guðmundsson: Veit ekki hvað formaður Sjálfstæðisflokksins er að fara með hótunum sínum – hér urðu valdaskipti
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Óttar Guðmundsson skrifar: Tóm leiðindi

Óttar Guðmundsson skrifar: Tóm leiðindi