Ármann Jakobsson skrifar hörku ádrepu á vefinn Smunguna undir heitinu Fátækt, sjálfbærni og hattræn hugsun. Ég er ekki viss um að allir verði hrifnir af þessari lesningu, en Ármann hefur sitthvað til síns máls. Segir meðal annars:
— — —
„Umræða um fátækt í íslensku samfélagi er eðlilega mikil eftir nokkurra ára kreppu. Fátækt er vissulega til hér á Íslandi og er ekki nýr gestur. Það gleymist stundum að hún var líka áberandi meðan þenslan var hvað mest og velmegunin. Hluti landsmanna sat ævinlega eftir, átti hvorki húsnæði né farartæki né neitt af því sem öðrum þóttu sjálfsagt og eðlilegt. Um vanda heimilislausra var lítið rætt meðan þorri þjóðarinnar dansaði í kringum góðærisgrísinn. Ráðamenn voru þá endurkjörnir eftir að hafa lýst biðröðum eftir mat þannig að „alltaf væru einhverjir sem vildu fá eitthvað ókeypis“.
Eftir hrunið hefur borið nokkuð á því að snúið væri úr fátæktarhugtakinu. Ég þekki sjálfur dæmi um manneskju sem lýsti sér sem fátækri þó að hún ætti bæði veglegt húsnæði, nokkra bíla og hefði farið nokkrum sinnum til útlanda á nýliðnu ári. Sjálfsagt vegna mikilla skulda sem eru sannarlega alvarlegt vandamál. Þess ber þó að gæta að boðið hefur verið upp á úrræði sem hin svonefndu Hagsmunasamtök heimilanna kalla „að lengja í hengingarólinni“. Það merkir á mannamáli að létt er á afborgunum þannig að ráðstöfunarfé eykst. Skuldin hverfur ekki og fólk á erfiðara með að finnast það eiga húsnæðið, er vissulega í allt annarri stöðu en það taldi sig vera. En fátækt?
Einn af þessum fílum í stofunni sem margir þykjast ekki sjá (af því það er óvinsælt að sjá hann) eru þau lífskjör sem drjúgur hluti íslensku þjóðarinnar fór að skammta sér í þenslunni. Þau lýstu sér í risavöxnu húsnæði, risabílum, dýrum heimilistækjum (sem helst ekki má nefna heldur, þjóðin verður svo reið ef minnst er á þetta) og alls konar munaði sem tíðkast ekki í hinum ríku nágrannalöndum okkar, hvað þá t.d. í Suður-Ameríku eða Afríku. Þetta er ein ástæða skuldsetningar þjóðarinnar og það sjá hana allir nema Íslendingar sjálfir. Ég fór í flugferð vorið 2008 sem var full af fólki á leið á árshátíð. Ég átti erfitt með að útskýra fyrir gestgjöfum mínum hvað árshátíð í útlöndum væri. Þetta fyrirbæri þekktist varla annarstaðar en á Íslandi.
Auðvitað eru skuldirnar sem við sitjum uppi með óskemmtilegar. Þær eru hins vegar ekki sakir arðráns erlendra aðila. Í þessu tilviki voru Íslendingar arðræningjarnir. Þeir fóru illa með eigin náttúruauðlindir, stunduðu píramídaviðskipti og blekktu erlenda fjárfesta sem sátu uppi með lungann af hinu risavaxna íslenska gjaldþroti. Samviskuleysi margra Íslendinga yfir þessu er frekar óhugnanlegt ef menn hugsa hnattrænt. Halda menn virkilega að íslenska risagjaldþrotið bitni aðeins á „fjármagnseigendum“ erlendis þegar það bitnar á allri þjóðinni hér? Eins er einkennilegt þegar stjórnmálamenn á atkvæðaveiðum líkja okkur við arðrænd lönd Afríku og tala um skuldaniðurfellingu munaðargjaldþrotsins hér í sömu andrá og niðurfellingu skulda kúgaðra ríkja. Sjá menn virkilega ekki muninn á lífskjörunum þar og hér? Hvernig er hægt að bera þetta saman í fúlustu alvöru? Og hvernig stendur að jafnvel fólk sem telur sig til vinstri leyfir sér að tala eins og skuldugur jeppaeigandi í einbýlishúsi (eða þó það væri skuldugur meðaljón bíllaus í blokkaríbúð en þó með hita og rafmagn og vatn og mat) sé sambærilegur við húsnæðislaust fólk á Haiti? Það er eitthvað sérkennilegt við það þegar fólk sem nýtur þess sama (eða sem leyfir sér mun meira í mörgum tilvikum) en sá er þetta ritar fer að kalla sig fátækt, búandi í heimi (og á landi) þar sem fátækt er raunverulegt vandamál.“