Berjaklasarnir á reynitrjánum hafa sjaldnast verið fallegri en nú síðsumars. Greinar trjánna svigna undan rauðum berjunum og litadýrðin er einstök.
Berin þykja ekki sérlega góð. Af þeim er rammt bragð. Þó eru til dæmi þess að búin sé til reyniberjasulta eða reyniberjasaft. Mér skilst að nauðsynlegt sé að frysta berin áður en gerð er sulta úr þeim – og hermt er að fuglar líti heldur ekki við þeim fyrr en eftir fyrstu næturfrostin.
Mér var sagt frá hænsnabónda sem reyndi að gefa hænum reyniber meðfram öðru fóðri – en það gekk víst ekki. Þær vildu ekki berin.
En það er fleira sem vex á trjám á þessu fallega sumri. Maður í Vesturbænum sagðist hafa étið kirsuber af tré í garði sínum – og á tveimur stöðum í sama hverfi hef ég séð epli á trjám.