Gunnur Tómasson hagfræðingur sendir þetta bréf til alþingismanna.
— — —-
Ágæti alþingismaður.
Í frétt á eyjan.is í dag, Of skuldsett til að falla. Sjávarútvegsfyrirtækin þola ekki frekari álögur eða fyrningu, segir svo:
Skuldir nokkurra stórra útvegsfyrirtækja eru meiri en svo að hægt sé að bjarga þeim.
Útlitið í stærsta grunnatvinnuvegi landsmanna er mun alvarlegra en margir hafa gert sér í hugarlund hingað til. Ný skýrsla Háskólans á Akureyri leiðir í ljós að 15 prósent stórra sjávarútvegsfyrirækja fara yfir um á næstu misserum og verður ekki bjargað með neinum leiðum. Rekstur 40 prósent slíkra fyrirtækja til viðbótar er í járnum og verður í járnum næstu árin. Aðeins 40 prósent allra sjávarútvegsfyrirtækja landsins halda sjó við núverandi aðstæður.
Umrædd skýrsla hefur ekki verið gerð opinber enn sem komið er en þar eru staðfestar verstu grunsemdirnar varðandi halloka sjávarútveg landsins sem er eftir bankahrun langstærsti og mikilvægasti grunnatvinnuvegur Íslands.
Er staðan svo alvarleg að Björn Valur Gíslason, þingmaður Vinstri grænna, segir með öllu ófært að leggja á frekari skuldbindingar og því þjóni engum tilgangi að innkalla aflaheimildir eða hefja svokallaða fyrningu því yfir helmingur fyrirtækja í sjávarútvegi megi ekki við að missa eina einustu krónu úr rekstrinum. „Það er sorglegt frá að segja en samkvæmt skýrslunni er staðan svo slæm að engu skipti þó ríkið fari fram á krónu, hundrað kall eða þúsund kall fyrir úthlutun í framtíðinni að fyrirtækin mörg ráða einfaldlega ekki við það.“
Þó siðferðilega telji menn rétt og sanngjarnt að fyrirtæki sem ekki hafa gætt aðhalds í rekstri fari í þrot flækir það málið töluvert hversu sjávarútvegsfyrirtækin eru stór hluti stærri viðskiptavina endurreistu bankanna. Líkur þykja sterkar að einhvers konar fyrning eða frekari álögur á sjávarútvegsfyrirtæki dragi þau einfaldlega í þrot með tilheyrandi búsifjum fyrir bankanna sem aftur gæti vel endað í skauti skattborgara landsins.
Umsögn.
Íslenzk stjórnvöld eru skuldbundin gagnvart Alþjóðagjaldeyrissjóðnum vegna efnahagsáætlunar stjórnvalda og AGS að hlaupa ekki frekar undir bagga með bönkunum vegna þess fortíðarvanda þeirra sem felst m.a. í skuldastöðu heimila og fyrirtækja, þ.m.t. sjávarútvegsfyrirtækja.
Í 7. gr. viljayfirlýsingar stjórnvalda til AGS dags. 20. Október 2009 segir m.a. svo: „…while we remain committed to protecting domestic deposits, we have no fiscal capacity to absorb any further private sector losses from the banking crisis, whether this be through direct use of government resources, or an indirect use of the government’s balance sheet to assume risk.”
[„…þótt við séum áfram skuldbundin til að vernda innlend innlán þá höfum við ekkert svigrúm á sviði ríkisfjármála til að axla nein frekari töp vegna bankahrunsins hvort sem væri í mynd beinna útgjalda hins opinbera eða óbeinnar yfirfærslu á áhættu til efnahagsreiknings hins opinbera.“]
Virðingarfyllst,
Gunnar Tómasson, hagfræðingur