Vilhjálmur Ari Arason vekur athygli á því í bloggi hér á Eyjunni að í sumar eigi að bjóða upp á ömurlega heilsugæslu hér í Reykjavík. Vilhjálmur skrifar meðal annars:
— — —
„Sl. daga hafa verið kynntar lokanir á ýmsum heilbrigðisstofnunum í sumar. Aðallega er um að ræða stofnanir á höfuðborgarsvæðinu. Geðdeild LSH lokar einni deild í sumar og lokanir verða á Barna- og unglingageðdeild LSH (BUGL). Í gær var kynnt á heimasíðu Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins að hún ætlar að loka öllum síðdegisþjónustum heilsugæslustöðvanna í sumar. Aðeins bráðustu erindum verður sinnt en öðrum vísað á kvöld- og helgarvaktir Læknavaktarinnar, Barnalæknavaktarinnar og á Slysa- og bráðamóttöku LSH. Fyrir ári síðan var skorið niður um 20% í móttöku heilsugæslustöðvanna og nú á að skera aftur niður um annað eins. Hvers eiga höfuðborgarbúar að gjalda? Fyrir er veruleg undirmönnun í heilsugæslunni á höfuðborgarsvæðinu hvað lækna varðar og atgerfisflótti er brostinn á í þeirra röðum vegna kjaraskerðingar og álags. Nýir sjúklingar fá sig ekki skráða á heilsugæslulækni og stór hluti sjúklinga er óskráður á lækni á heilsugæslustöðvunum. Gamla heimilislæknaskráningin á höfuðborgarsvæðinu er við það að springa.“