15. september er spennandi dagur fyrir kvikmyndaáhugamenn. Þá opnar í Regnboganum gamla fyrsta íslenska bíóið sem má kalla cinematheque upp á frönsku – bíó sem er rekið af hugsjón og á að sýna myndir sem eru listrænar, öðruvísi, eða hreinlega myndir sem komast ekki í bíóin.
Það verður spennandi að sjá hvernig til tekst. Maður vonar að þarna verði blanda af nýjum myndum og gömlum, leiknum myndum og heimildarmyndum. Í kvikmyndamiðstöð af þessu tagi gefst oft vel að sýna úrval mynda einhverra meistara eða úr einhverri stefnu – sjálfur er ég með dellu fyrir ítalska nýraunsæinu þessa dagana. Ég hef reyndar ofurþolinmæði gagnvart gömlum bíómyndum síðan á árum Fjalakattarins sem starfaði í Tjarnarbíói á árunum 1975 til 1980, svo var það gott kvikmyndauppeldið sem maður fékk hjá eldhuganum Friðriki Þór.
Síðan þá hef ég fremur talið það afturför að myndir séu í lit eða með hljóði. Ég hef komið í hið fræga cinemateque í París, en eftirminnilegasta stofnun af þessu tagi sem ég hef komið í er í Jerúsalem. Það er reyndar víðfrægur staður.
Það er eiginlega sjálfsagt að sýningar Kvikmyndasafnsins flytjist þarna niðureftir. Bæjarbíó þar sem Kvikmyndasafnið er núna er fallegt og skemmtilegt hús, en því miður er það talsvert út úr. Að minnsta kosti hlýtur að verða eitthvert samstarf við Kvikmyndasafnið. Þannig er hægt að renna mörgum stoðum undir þessa starfsemi – þannig að þetta verði alvöru miðstöð kvikmyndamenningar á Íslandi.
Opnunarmyndin 15. september verður heimildarmyndin Backyard eftir Árna Sveinsson og Sindra Kjartansson. Hún sigraði á Skjaldborgarhátíðinni í ár. Hér er brot úr myndinni:
[youtube=http://www.youtube.com/watch?v=fFnmKbacRuQ]