Sigrún Davíðsdóttir flutti pistil sem hún nefndi Icesave og óraunveruleikinn í Speglinum í gær. Niðurlag hans er svona:
— — —
„Það heyrist æ oftar á Íslandi að besta Icesave-leiðin sé kannski sleppa samningum og láta Icesave fara fyrir dóm. Samkvæmt heimildum Spegilsins álíta hugsandi menn í stjórnkerfinu þó að það sé glapræði. Einn heimildarmaður Spegilsins bendir á að í áminningarbréfi ESA séu atriði sem bendi eindregið til að það mál muni tapast. Þá verði vísast verða dæmdir vextir frá fyrsta degi, spurning hvaða vextir. Og ekkert vaxtafrí. Líka ósennilegt að tekið yrði tillit til hvernig greiðslur berist úr búi Landsbankans. Það allra versta væri svo ef dæmt yrði út frá því að Íslendingum voru bættar allar innistæður og því ættu Íslendingar líka að bæta útlendar innistæður að fullu: ekki bara bæta fyrstu 20 þúsund evrurnar á hverjum reikning.
En það er heldur ekkert grín að Icesave-deilan skuli enn ekki til lykta leidd. Það ber við að íslensk fyrirtæki sem stunda viðskipti erlendis verði hornrekur í bönkum og tryggingarfélögum vegna óleystra og útistandandi Icesave-mála.
Í Speglinum hefur oft verið hnykkt á að það varð ljóst strax í fyrra hvaða atriði Bretar og Hollendingar vilja semja um. Þeir eru ekki til viðræðna um hinstu lagalegu rök heldur aðeins um krónur og aura, um vexti og vaxtafrí. Samkvæmt heimildum Spegilsins eru Hollendingar þverari en Bretar en í hvorugu landinu er Icesave neitt alþýðumál. Þjóðirnar tvær eru búnar að gera upp við innstæðueigendur heima fyrir og vilja nú bara að Íslendingar greiði þessa lágmarkstryggingu.
Í Landsbankanum hefur þegar verið skrapað saman eitthvað upp í Icesave og að öllum líkindum meira í vændum. Hið óheppilega er að í íslenskri stjórnmálaumræðu hefur Icesave snúist upp í landsleik. Andinn er að ef íslensk stjórnvöld geta ekki sýnt fram á einhvern áþreifanlegan sigur verður Icesave-leikurinn ný útgáfa af 14-2, háðuglegt tap og þjóðarskömm. Séð erlendis frá er þetta algjöra óraunverulegur skilningur. Eins og áður sagði er Icesave ekkert alþýðumál erlendis, ekkert þjóðarstolt að veði þar, aðeins óuppgerður reikningur í fjármálaráðuneytum tveggja landa.“