Það hefur ekkert lekið út um starf þingmannanefndarinnar sem hefur farið yfir skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.
Henni hefur tekist að halda algjöra þögn um starf sitt. Það er algjörlega á huldu hvort nefndin mælir með því að ráðherrar verði dregnir fyrir landsdóm. Mesta spennan er um það, en nefndin á að draga lærdóm um ýmis önnur mál.
Niðurstaðan á að birtast á morgun. Það hafa verið ýmsar fabúlegingar um nefndina, meðal annars á forsíðu Morgunblaðsins, en mikið af því virðist vera úr lausu lofti gripið – og jafnvel sett fram til að skapa usla.
Niðurstöður nefndarinnar verða birtar þingmönnum síðdegis á morgun og um svipað leyti verða þær aðgengilegar almenningi á netinu, eða það skilst mér.
Enginn nefndarmanna mun ætla að tjá sig fyrr en málið kemur til umræðu í þinginu eftir helgi.
En það kemur væntanlega í minn hlut að skoða álit nefndarinnar í Silfrinu á sunnudag.