Öfgamenn nærast á fjölmiðlaumfjöllun eins og púkinn á kirkjubitanum. Og á móti kemur að fjölmiðlar eru mjög spenntir fyrir öfgamönnum. Þannig að þetta er svona symbíótískt samband.
Nú er allt vitlaust út af einhverjum ruglsöfnuði í Bandaríkjunum sem ætlar að brenna Kóraninn eftir þrjá daga. Í rauninni er ekkert merkilegt við þetta. Ég gæti til dæmis tekið Kóran hér úr hillunni hjá mér, farið með hann út í garð og kveikt í honum.
Í Þýskalandi er mikið fjallað um mann sem heitir Thilo Sarazzin. Hann er meira að segja á forsíðu Der Spiegel. Thilo þessi er ekkert annað en ótíndur rasisti, ósköp ómerkilegur karl. En samt standast fjölmiðlar ekki mátið að hlaupa á eftir honum.
Eins er þetta með Færeyinginn Jenis av Rana. Hvers vegna í ósköpunum ættum við að láta skoðanir þessa manns á samkynhneigð okkur varða?
Og svona er þetta áfram, það er alveg makalaust hvað öfgar þykja heillandi.
Einn virtasta alþjóðamálastofnun heims, International Institute for Stragetic Studies, segir að hættan sem Vesturlöndum stafi af uppgangi Talibana og al-Qaida í Afganistan sé fullkomlega ofmetin. Þeir þykja ekki öfgamenn hjá IISS, en þeim finnst nóg um hvernig er látið með öfgamennina í Afganistan.
En þessa stundina eru þeir auðvitað það sem kallast á ensku the enemy of choice.