Það voru einhverjir að skrifast á um það á Facebook hverjar væru bestu barnabækurnar. Það var talað um Bróður minn Ljónshjarta og Kipling og Tarzan og Gúmmí-Tarzan en ég lagði orð í belg og nefndi bækurnar fjórar um Gvend Jóns eftir Hendrik Ottósson. Fyrir mína parta eru þetta skemmtilegustu barnabækur sem hafa verið skrifaðar á Íslandi – það tengist auðvitað upplifun minni af þeim í bernsku. Bækurnar um kraftmikla stráka og ævintýri þeirra í Vesturbænum í Reykjavík – árið sem bækurnar gerast er sirka 1905. Þetta eru ár þegar sagt er að barnahópar hafi farið um göturnar í Reykjavík og verið til vandræða.
Sögusviðið er þorpið sem Reykjavík var á þeim tíma; það er höfnin sem er aðalmálið – hún seiðir strákana til sín. Þar liggja kútterar og skonnortur, líka skip frá fjarlægum löndum. Strákarnir kunna að bjarga sér á vesturbæjarfrönsku og segja:
„Allabaddarí fransí, biskví, vúllevú.“
Ég er að lesa þessar bækur í annað sinn með Kára, nú getur hann lesið þetta sjálfur en stundum lesum við saman. Það er skemmtilegt að fara með þennan gamansama texta upphátt og drengurinn er hugfanginn – sérstaklega finnst honum fyndnir pottormarnir sem elta söguhetjurnar hvert sem þær fara, vilja vera menn með mönnum en eiga ekki almennileg færi heldur bara bogna títuprjóna og tvinna.
Nú er hann líklega vaxinn upp úr því að vera pottormur. Er sjálfsagt á svipuðu reki og söguhetjur bókarinnar, kannski aðeins yngri. Við erum búnir með fyrstu bókina, Gvendur Jóns og ég, byrjaðir á öðru bindinu sem heitir Gvendur Jóns og við hinir.
Við þekkjum líka söguslóðir bókarinnar ágætlega þótt þær séu breyttar síðan þá, Slippinn, höfnina, Grandann, Örfirisey. Erum oft að ganga þar um eða hjóla. Á þessum tíma hefur fjaran verið um það bil þar sem Tryggvagatan er, nokkrum árum eftir að bækurnar eiga að gerast var ráðist í fyrstu stórframkvæmdir Íslandssögunnar og Reykjavíkurhöfn byggð, að stórum hluta á uppfyllingum.
Heimurinn sem lýst er í bókunum virkar saklaus í dag – en hann hrífur ennþá. Það má til dæmis hlæja að uppsagnarbréfi Gvendar Jóns til stúlkunnar sem gaf honum vínber og sælgæti og sagði að hann væri trúlofaður sér:
„Kjæra Fríða. Þeta er upsagnarbréf. Jig er búin að svíkja þeg og við erum ekki trúloföð. Þú ert ekki kjærastan mín. En mér þikir góð vínbir. Þinn Gvendur.“
Höfnin í Reykjavík um aldamótin 1900, nokkrum árum áður en farið var í hinar miklu hafnarframkvæmdir.
Af Hendriki Ottóssyni er það að segja að hann var sonur Caroline Siemsen og Ottós N. Þorlákssonar sem var fyrsti forseti ASÍ. Hann ólst upp við Vesturgötuna þar sem er sögusvið bókanna um Gvend Jóns. Hendrik gerðist bolsévíki eftir byltinguna í Rússlandi, stóð með Ólafi Friðrikssyni í stríðinu um rússneska drenginn árið 1921, fór til Moskvu á vegum hreyfingarinnar, en varð viðskila við meginstraum kommúnismans þegar hann var rekinn úr flokknum 1932. Hann hafði mikla óbeit á nasismanum, kvæntist gyðingakonu sem fyrir vikið fékk hæli hér á landi, var fréttamaður við útvarpið og túlkur fyrir breska hernmámsliðið í stríðinu – og stundaði jafnvel einhvers konar leyniþjónustustörf fyrir Bretana.
Fyrsta bókin af fjórum um Gvend Jóns og vini hans kom út 1949, en Hendrik – Hensi eins og hann er kallaður í bókunum – andaðist 1966. Hann skrifaði líka tvær bækur með æviminningum, Frá Hlíðarhúsum til Bjarmalands og Vegamót og vopnagný, og líka bók þar sem er fjallað um Hvíta stríðið eins og hann nefnir það, átökin um rússneska drenginn Natan Friedman.
Stuðningsmenn Ólafs Friðrikssonar leiddir burt af lögreglu og hvítliðum eftir átök við hús Ólafs í Suðurgötu. Þessir sögulegu atburðir hafa verið kallaðir Hvíta stríðið.
Um Hendrik orti Jón Helgason, skáld og síðar prófessor, þetta kvæði þegar Hendrik kom af Kominternþingi í Moskvu árið 1920 – tekið skal fram að Hendrik var Siemsen í móðurætt. Þetta er óbirt kvæði að því ég best veit.
Um Lenín sem ríkir í rauðustum heim
og refsar með blóðugu straffi
ég yrki mitt kvæði af ástæðum þeim
að öðlingur sá gaf mér kaffi.
Og með því var framreitt hið fínasta brauð
sem framast var kostur að torga
það var lagsmaður Siemsen sem lostætið bauð,
en Lenín mun þurft hafa að borga.
Í austrinu hervæðist harðsnúið lið
og hanarnir blóðugir gala
því líta menn víða í löndunum við
um Lenín er verið að tala
Mig furðar ekki á þó að frægð þessa manns
sé flogin um gjörvallar álfur
fyrst svona er aumasti húskarlinn hans
hvílíkur mun hann þá sjálfur.