Lögfræðingur sendi þessar línur:
— — —
„Ragnhildur Sverrisdóttir ritaði grein í Fréttablaðið mánudaginn 6. september, þar sem hún útskýrir hvers vegna ekki megi leggja „skuldauppgjör“ Björgólfs Thors við „skuldaflótta“ annarra. Þar segir hún:
„… Það sem virðist valda mestum misskilningi -og gerir að verkum að skuldauppgjör Björgólfs Thors er lagt að jöfnu við skuldaflótta annarra – er umræða um persónulegar ábyrgðir Björgólfs Thors. Eins og hann skýrði sjálfur frá í viðtali við Viðskiptablaðið í lok júlí gátu bankar hæglega gengið að þessum ábyrgðum og þar með keyrt hann í þrot. Það ákváðu þeir hins vegar að gera ekki, enda hefðu heimtur þá orðið lélegar, eignir farið á brunaútsölu og verðmæti gufað upp. Þess í stað fóru bankar þá leið að fresta ábyrgðunum þar til uppgjör hefur átt sér stað. Er ekki augljóst, að bankar ganga ekki að þessum ábyrgðum þegar búið er að semja um hvernig þeir fá greitt? Og greitt að fullu, í stað þess að fá brot af því sem þeim ber?
Af einhverjum ástæðum telja sumir sæmandi að leggja fullt skuldauppgjör eins manns að jöfnu við kyrrstöðu, athafnaleysi, dugleysi og vaxtaleysi annarra. Hefur þó verið upplýst, að fyrir utan að leggja fram yfirlit yfir allar eigur sínar opnaði Björgólfur Thor sjóði, sem lánardrottnar hefðu aldrei getað fengið aðgang að með öðru móti, og notaði fé í þeim til greiðslu skulda.
Þessum sjóðum hefði hann getað haldið og dregið úr þeim milljarð hér og milljarð þar, til kaupa á fyrirtækjum eða lúxusíbúðum. Hann lýsti því hins vegar yfir að hann kærði sig ekki um að vera á eilífum flótta frá samfélaginu, heldur vildi gera skuldir sínar upp.“
Með öðrum orðum: Björgólfur var í sumar ekki borgunarmaður skulda sinna. Hann hins vegar átti einhverja peninga í sjóðum sem “ lánardrottnar hefðu aldrei getað fengið aðgang að“. Með því að veita aðgang að þessum sjóðum slapp hann við gjaldþrot.
Hér er um ákveðinn misskilning að ræða. Skuldarar hafa ekki val um það hvort þeir gefa upp eignir, þeim ber skylda til þess að lögum að viðlagðri refsiábyrgð. Kröfuhafar Björgólfs hefðu væntanlega getað fengið dóm fyrir kröfum sínum og í framhaldinu farið fram á fjárnám hjá honum. Fjárnám er reyndar oft heimilt án undangengins dóms. Samkvæmt 5. kafla laga um aðför nr. 90/1989 ber skuldara að greina frá eignum og ýmis ákvæði eru þar um að honum beri að segja satt frá. Leyni menn eignum um um s.k. skilasvik að ræða, sem fjallað er um í 250. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Þar segir: „Fyrir skilasvik skal refsa með allt að 6 ára fangelsi hverjum þeim, sem sekur gerist um eftirgreinda verknaði: […] 4. Skerðir rétt einhvers lánardrottins síns til þess að öðlast fullnægju af eignum hans með því að gefa rangar upplýsingar, með undanskoti eigna …“
Svo virðist sem Björgólfur hafi náð góðum samningum við lánadrottna með því að neita að sinna lagaskyldu sinni til að gefa upp eignir. Það hljómar æði líkt þeirri háttsemi sem verið er að lýsa í 250. gr. hegningarlaganna, án þess að neitt sé fullyrt um það hér að lögbrot hafi verið framið. Um tilraun til brots á hegningarlögum er fjallað í 20. gr. laganna: „Hver sá, sem tekið hefur ákvörðun um að vinna verk, sem refsing er lögð við í lögum þessum, og ótvírætt sýnt þann ásetning í verki, sem miðar eða er ætlað að miða að framkvæmd brotsins, hefur, þegar brotið er ekki fullkomnað, gerst sekur um tilraun til þess.“
Samkvæmt grein Ragnheiðar var um sjóði af slíkri stærð að ræða, að Björgólfur hefði getað „dregið úr þeim milljarð hér og milljarð þar, til kaupa á fyrirtækjum eða lúxusíbúðum.“
Nú er spurning er hvort málið sé ekki af þeirri stærðargráðu að lögregla og saksóknarar sjái ástæðu til að kanna sannleiksgildi fullyrðinga Ragnheiðar. Eins og kunnugt er eru menn saklausir uns sekt er sönnuð og er rétt að ítreka að með þessum skrifum er ekki ætlunin að fullyrða neitt um að lög hafi verið brotin, bara verið að benda á þau lög sem átt geta við.
Í öllu falli er rétt að leiðrétta allan misskilning um að Björgólfur sé á einhvern hátt göfugri en aðrir ofurskuldarar með því að láta það ógert að stinga undan þeim milljörðum sem hann virðist hafa gefið upp.
Loks er rétt að geta þess að eftirgjöf skulda getur leitt til skyldu til greiðslu tekjuskatta. Væntanlega munu skattayfirvöld óska eftir upplýsingum um „skuldaskil“ Björgólfs með það fyrir augum að meta hvort hugsanlega hafi stofnast til hárrar skattkröfu á hendur honum vegna ívilnunar af hálfu kröfuhafa.“