Í yfirlýsingu vegna breyttrar ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur eru nefnd tuttugu atriði. Sumt eru almælt tíðindi, annað er nokkuð merkilegt. Þar á meðal grein númer fjögur:
„Lög um stjórn fiskveiða endurskoðuð á grunni niðurstöðu sáttanefndar og breytingar á stjórnarskrá (sameign á auðlindum) tryggðar. Þjóðaratkvæðagreiðsla um kvótakerfið undirbúin ef ekki næst viðunandi sátt.“
Þarna er gefið sterkt fyrirheit um að framtíð fiskveiðistjórnunarkerfisins verði ákveðið í lýðræðislegri kosningu – en um leið er þetta eins og svipa yfir nefndinni sem nú er að störfum og á að finna tilhögun sem getur orðið sátt um. Ef hún stendur sig ekki, þá fær þjóðin að ákveða.
Athygli vekur að í yfirlýsingunni er ESB ekki nefnt á nafn né heldur aðildarviðræður við sambandið. Er það tilviljun eða er það gert til að hlífa tilfinningum VG-ara?
Hins vegar er sagt að fækka eigi ráðuneytum enn frekar – þannig að Jón Bjarnason þarf kannski ekki að kemba hærurnar í ráðuneyti sínu.