Í frétt segir að Yoko Ono ætli að halda upp á sjötíu ára afmælisdag Johns Lennon á Íslandi. Afmælið er 9. október. Það verða haldnir hljómleikar og ekki óhugsandi að einhverjir merkir tónlistarmenn komi þar fram – maður getur allavega vonað.
Yoko ætlar líka að afhenda svonefnd Lennon/Ono friðarverðlaun og það er athyglisvert hverjir hreppa þau. Allt er það þekkt baráttufólk fyrir betri heimi.
Alice Walker er rithöfundur sem hefur skrifað frægar bækur um hlutskipti blökkumanna, frægust er sjálfsagt The Color Purple. Michael Pollan er höfundur frægrar bókar sem nefnist In Defense of Food, hann hefur fjallað um iðnvæðingu matvælaframleiðslunnar og bent á ýmsar ógnvekjandi staðreyndir í því sambandi. Við hann er meðal annars rætt í heimildarmyndini Food Inc. sem hægt er að fá á vídeóleigum – það er eiginlega skylduáhorf á þá mynd. Josh Fox hefur gert heimildarmynd sem nefnist Gasland og segir frá mengun af völdum gasvinnslu í Bandaríkjunum. Barbara Kowalcyk missti son sinn vegna ecoli sýkingar og er baráttukona fyrir betri og öruggari matvælum.