Kosningabaráttan er að breyta um tón.
Vinstri flokkarnir eru hættir að ráðast á Sjálfstæðisflokkinn, en einbeita sér nú að Besta flokknum á öllum vígstöðvum – í bloggi og á Facebook.
Atlögurnar eru bæði að flokknum í heild sinni og einstökum frambjóðendum.
Því er haldið fram að Jón Gnarr sé ógurlegur hægri maður og að Páll Hjaltason arkitekt sem er í sjöunda sæti listans megi ekki sjá gömul hús án þess að vilja rífa þau.
Spurning hvort þetta virkar – eða hvort það virkar öfugt eins og stundum vill verða?
Eða man einhver eftir auglýsingunni sem nokkrir menn úr viðskiptalífinu keyptu stuttu fyrir forsetakosningarnar 1996, þar sem þeir vöruðu við Ólafi Ragnari Grímssyni. Fylgi Ólafs hafði farið dvínandi dagana áður, en tók mikinn kipp við þessa auglýsingu. Það má jafnvel segja að þeir liðsmenn Kolkrabbans sem stóðu að auglýsingunni hafi endanlega tryggt kjör Ólafs.