Í grein í Wall Street Journal 29. janúar 2004 lýsti Hannes Hólmsteinn Gissurarson stefnu Davíðs Oddssonar sem best heppnuðu frjálshyggjutilraun veraldar og sagði meðal annars, tilvitnunin birtist í DV í dag:
„Margt er þó enn ógert. Heilbrigðis- og menntamálin eru enn í höndum hins opinbera, það á einnig við um ýmsa aðra opinbera þjónustu, fjölmiðlafyrirtæki og vatnsorkuverin. Menn nátengdir herra Oddssyni telja að tvennt beri að setja í forgang: að lækka tekjuskatta og styrkja einkaeignarréttinn, bæði á fjárfestingum og náttúruauðlindum.“
Mesta einkavæðing Íslandssögunnar var kvótakerfið, þar var verðmætustu auðlind þjóðarinnar komið í einkaeign. Morgunblað Davíðs Oddssonar ver kvótakerfið með kjafti og klóm. Nú er sagt að 70 prósent kvótans séu í eigu 70 einstaklinga.
Maður hikar reyndar við að nota orðið „eign“ í þessu sambandi, en þannig er það í raun og veru.
Ef marka má ritstjórnargreinar síðustu daga virðist Morgunblaðið hins vegar vera andsnúið sölunni á HS-Orku.
Í báðum tilvikum er um einkavæðingu náttúruauðlinda að ræða – og þá er spurning: hvenær snýst Mogginn gegn kvótakerfinu?