Sigurður G. Guðjónsson er í viðtali í Viðskiptablaðinu í dag. Hann skýtur fast á Evu Joly, heldur því meðal annars fram að þegar hún kom hingað hafi hún lofað að endurheimta peningana sem útrásarvíkingar hafa komið undan.
Þetta er eiginlega skot út í loftið.
Joly sagði frá fyrsta degi að við skyldum ekki gera okkur vonir um miklar endurheimtur á þessum fjármunum. Hugsanlegt væri þó að nálgast eitthvað af þessum peningum – og það ættum við að gera. Hún lagði hins vegar mikla áherslu á samfélagssáttmálann, nauðsyn þess að rannsaka mál og komast að sannleikanum.
Ég sé að Sölvi Tryggvason skrifar um að útrásarvíkingar – þá líklega þeir sem liggja undir þungum ásökunum í skýrslu rannsóknarnefndar eða eru jafnvel til rannsóknar hjá sérstökum saksóknara – vilji ekki koma í viðtöl í þáttinn hans.
Ég ætla að setja fram skoðun sem má vera umdeild. Hún er sú að í raun þurfi ekki mikið að tala við þessa menn á þessum tímapunkti. Eftir skýrslu rannsóknarnefndar þar sem ekkert er dregið undan um hrikalega stjórnarhætti í bönkunum og eftir að sérstakur saksóknari hóf að kalla grunaða fjárplógsmenn í yfirheyrslur eru málin komin á nokkuð annað plan en áður.
Málin eru semsagt meðferðar hjá yfirvöldum og þar munu þau væntanlega hafa sinn gang. Þar verða þau útkljáð. Verjendur munu setja fram sína málsvörn og þar verður ekkert sparað.
Hið sama gildir um stjórnmálamenn og fyrrverandi embættismenns sem eru sakaðir um vanrækslu af rannsóknarnefndinni. Nú er að störfum sérstök þingnefnd sem á að ákveða hvað verður aðhafst í málum þessa fólks. Hún á að skila af sér í byrjun vetrar.
Og á meðan er ekki svo mikið við það að ræða.